Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna ætlaði í frí þegar vinnudeginum lauk klukkan fjögur í gær að því er RÚV segir frá en fimm klukkustundum síðar hófst fyrsta eldgosið á Reykjanesskaganum í nær 800 ár. Fríið varð því í styttra lagi hjá Víði enda var hann mættur í viðtöl við fjölmiðla í gærkvöldi ásamt því að greina stöðuna með Almannavörnum.

Víðir mun áfram standa vaktina á blaðamannafundi Almannavarna og Veðurstofunnar klukkan tvö í dag á ásamt Kristínu Jónsdóttur frá Veðurstofu Íslands og Magnúsi Tuma Guðmundssyni frá Háskóla Íslands.

Mikið hefur mætt á Víði undanfarið ár enda hefur hann haldið nær daglega blaðamannafundi með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni og Ölmu Möller landlækni vegna kórónuveirunnar. Víðir hefur áður sagt frá því að hann sé að ná upp fullu þreki eftir að hafa smitast af kóróunveirunni í nóvember.

Eldgosið sem hófst í gær er nokkuð minna en útlit var fyrir í gær og virkni þess hefur farið minnkandi. Því hefur almannavarnastig verið lækkað úr neyðarstigi niður á hættustig.

Þá segir Veðurstofan í tilkynningu að gosið sé afmarkað við mjög lítið svæði ofan í dalverpi og afar ólíklegt að hraunflæði komi til með að valda tjóni. Fólk er engu síður varað við því að fara nærri eldstöðvunum enda streymi hættulegt gas upp úr jörðinni.