Í morgun tilkynnti KB banki að seldir yrðu nýir hlutir í félaginu til að styrkja eiginfjárstöðu bankans og gera kleift að ráðast í yfirtöku á fyrirtækjum sem myndu styrkja fjárfestingarbankastarfsemi og eignstýringu á Norðurlöndum og í Bretlandi. Söluferlið hefst í dag og lýkur kl. 16 á morgun og er ráðgert að selja 80-110 milljón nýja hluti í bankanum. Endanlegt verð liggur ekki fyrir en verður á bilinu 460-500 krónur á hlut en gengi bréfa í KB banka hefur verið nálægt 500 síðustu viðskiptadaga. Samkvæmt þessu gæti salan skilað 37-55 mö.kr. en fram kemur að bankinn stefnir að því að útvega 40 ma.kr. og jafnvel 50 ma.kr. ef um verulega umframáskrift verður að ræða.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að heimild til aukningar hlutafjár hefur legið fyrir frá því í sumar og er því ekki um óvænta frétt að ræða. "Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort að erlendir fjárfestar taki virkan þátt í útboðinu en forkaupsréttur núverandi hluthafa gildir ekki. Við höfum áður sagt að við teljum líklegt að KB banki muni freista þess að yfirtaka breska bankann Singer & Friedlander. Gengi hans í kauphöllinni í London hefur hækkað jafnt og þétt á síðustu vikum og m.v. síðasta viðskiptagengi þyrfti KB banki um 55 ma.kr. til að yfirtaka bankann en KB banki á tæp 20%. Ekki er þó hægt að útiloka að KB banki hafi önnur áform um fyrirtækjakaup. Allt stefnir því í að hluthafahópur KB banka muni breikka og rekstur sömuleiðis," segir í Morgunkorninu.

Þar er enn fremur bent á að með tilkynningunni fylgdu bráðabirgðatölur um afkomu á 3.ársfjórðungi og samkvæmt því nam hagnaður samstæðunnar að danska bankanum FIH meðtöldum 5,5 mö.kr. Þetta er nokkuð betri afkoma en Íslandsbanki spáði (3 ma.kr. án FIH og um 4,8 ma.kr. með FIH). Þar sem ekki fylgir sundurliðun á afkomutölunum verður mat á þeim að bíða uns uppgjörið verður birt 28.október