Bush Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann hyggist grípa til stórtækrar uppbyggingar á kjarnorkuverum. Bush telur að kjarnorka sé öruggur og ódýr orkugjafi sem henti vel til að auka orkubirgðir landsins. Yfirlýsing Bush kemur í kjölfar þess að áhyggjur í Bandaríkjunum fara vaxandi vegna þess hversu háð Bandaríkin eru erlendum mörkuðum með orku. Frekari uppbygging kjarnorku myndi því auka sjálfstæði Bandaríkjanna í orkumálum.

Benedikt páfi heimsækir Pólland

Benedikt páfi XVI hefur hafið fjögurra daga heimsókn til Póllands en hann mun meðal annars messa fyrir almenning í Varsjá og heimsækja útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz á sunnudag. Í Auschwitz mun páfinn biðja fyrir því að mismunandi trúarbögð fái lifað í sátt og samlyndi.

Barclays býst við auknum hagnaði á árinu.

Breski bankarisinn Barclays býst við að hagnaður árins verði yfir væntingum greiningaraðila sem hafa spáð að hagnaður verði 6,18 milljarðar punda. Barcleys segist þó einnig búast við að kostnaður verði hærri en áður var búist við.

Átök í Mogadishu

Íslamskir uppreisnarmenn berjast nú við stjórnarherinn í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. Fjöldi fólks hefur særst og látist í skotbardögum. Átökin hafa nú staðið yfir í mánuð og ekkert lát virðist vera á þrátt fyrir að vopnahlé milli stríðandi fylkinga hafi verið undirritað fyrir tíu dögum.

Hagnaður Nintendo dregst saman um 19%

Japanska fyrirtækið Nintendo hefur tilkynnt að hagnaður hafi dregist saman um 19% á síðasta ári. Ástæða samdráttar er aðallega rakin til minnkandi eftirspurnar fyrir nýjum GameCube hugbúnaði fyrirtækisins. Nintendo býst við betri afkomu á þessu ári en segir að viðsnúningur muni ganga hægt fyrir sig. Nintendo hefur notið mikilla vinsælda í Japan undanfarið ekki síst vegna vel heppnaðrar markaðsetningar sem varð til þess að konur og fullorðnir bættust í hóp unglinga og byrjuðu að kaupa tölvuleiki.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum yfir væntingum

Komið hefur í ljós að hagvöxtur í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi er meiri en búist var við. Hagspekingar bjuggust við að hagvöxtur síðustu 12 mánaða væri 4,8 í lok fjórðungsins en nú hefur komið í ljós að hagvöxtur er 5.8% .

Bill og Melinda Gates hjálpa berklaveikum

Bill Gates hefur, ásamt konu sinni Melindu, gefið 104 milljónir dollara (7,5 milljarða króna) til samtaka sem berjast gegn útbreiðslu berkla. Peningarnir verða notaðir til að þróa lyf sem geta læknað sjúkdóminn. Berklar eru afar útbreiddir í Afríku en fáir sjúkdómar draga eins marga til dauða.