Fyrirtækið European Aeronautic Defence & Space, sem á meirihluta í flugvélaframleiðandanum Airbus, tilkynnir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs nemi 516 milljónum evra, 47 milljörðum íslenskra króna, miðað við 410 milljónir evra á sama tímabili ársins 2005.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta, lækkun á viðskiptavild og óreglulega kostnaðarliði, sem er stærð sem fjárfestar horfa á hjá fyrirtækinu, hækkar um 19% og nemur 780 milljónum evra. Sérfræðingar höfðu búist við 10% hækkun. Þá segir fyrirtækið að áætlun um hagnað á árinu hafi ekki breyst.

Endesa sýnir stóraukinn hagnað

Spænska orkufyrirtækið Endesa tilkynnir að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hafi numi 1,05 milljörðum evra, eða 96 milljörðum króna, sem er 88% aukning frá fyrra ári, þegar hagnaðurinn var 560 milljónir evra á fyrsta fjórðungi. Sérfræðingar höfðu búist við 686,5 milljóna evra hagnaði á fjórðungum. Aukningin er þökkuð alþjóðlegri starfsemi fyrirtækisins, sem fyrirtækið Gas Natural er nú að reyna að taka yfir gegn vilja stjórnar.

Samrunaviðræður milli Euronext og NYSE í fullum gangi

Fulltrúar NYSE kauphallarinnar í New York hitta yfirmenn evrópsku Euronext kauphallarinnar og ræða hugsanlegan samruna, að því er fram kemur í The Wall Street Journal. Ef af yrði myndi NYSE skáka keppinauti sínum Nasdaq, sem einnig hefur reynt fyrir sér með kaup á evrópskri kauphöll.

Lukoil kaupir eignir Marathon Oil

Rússneska olíufyrirtækið Lukoil gerir samning um að kaupa leitar- og framleiðsluréttindi Marathon Oil Corporation í Khanty-Mansiysk sjálfstjórnarhéraðinu í Yugra í Vestur-Síberíu. Kaupverð er 787 milljónir dollara, eða 56 milljarðar króna.

Nýskráðum bifreiðum fækkar í Vestur-Evrópu í apríl

Heildarfjöldi nýskráðra bifreiða í Vestur-Evrópu lækkar um 7,3% í apríl miðað við sama mánuð 2005, að því er kemur fram í tilkynningu frá Evrópusamtökum bifreiðaframleiðenda. Óhagstæðri tímasetningu páska er kennt um. Aukning er þó mikil hjá Fiat eins og síðustu mánuðina á unda.

Hagnaður BAA fyrir skatta lækkar um 17%

Hagnaður BAA, sem rekur flugvelli, nam 757 milljónum punda á reikningsárinu, 102 milljörðum króna, samanborið við 915 milljónir evra árið áður. Sala jókst um 7,6%. Fyrirtækið segist búast við 3,5% fleiri farþegum á árinu en í fyrra og stjórnin ítrekar að yfirtökutilboð Ferrovial upp á 8,8 milljarða punda sé of lágt að hennar mati.