Fjarskiptarisinn Verizon tilkynnir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs hafi verið 1,63 milljarðar dollara, eða 120 milljarðar íslenskra króna, sem svarar til 56 senta á hlut. Án sérstakra gjaldaliða nam hagnaðurinn 60 sentum á hlut. Tekjur jukust um 25% og námu 22,74 milljörðum dollara, eða 1.679 milljörðum íslenskra króna, en félagið tók MCI yfir á tímabilinu. Sérfræðingar höfðu búist við 59 sentum á hlut og tekjum upp á 22,8 milljarða dollara. Forstjóri fyrirtækisins segir að enn sé áhugi innan þess á að kaupa 45% hlut Vodafone í Verizon Wireless, sem bætti við sig 1,7 milljónum áskrifenda, en það var yfir áætlunum. Hlutabréf í Verizon hækka um 1%.

Gengi bréfa í Visteon stórhækkar í kjölfar fjórðungsuppgjörs

Gengi bréfa í bílavarahlutaframleiðandanum Visteon hækkar um 23% í kjölfar frétta um að hagnaður fyrsta ársfjórðungs hafi numið 3 milljónum dollara (221 milljón króna), eða 2 sentum á hlut, miðað við 163 milljóna dollara tap á sama tíma 2005. Sala minnkar þó um 2,8 milljarða dollara eftir sölu á 23 verksmiðjum til Ford.

Vísitala um húsnæðiskaup lækkar vestra

Landssamtök fasteignasala í Bandaríkjunum tilkynnir að vísitala um viðskipti með eldri fasteignir hafi lækkað um 1,2% í mars, eftir árstíðarleiðréttingu.

Bréf í Hovnanian lækka

Bréf í byggingarfyrirtækinu Hovnanian lækka í verði um 7% eftir tilkynningu um lægri tekjuspá fyrir annan ársfjórðung og árið 2006 í heild. Sérfræðingar velta fyrir sér hvort rekstur þess kunni að vera enn verri en spár fyrirtækisins sjálfs gera ráð fyrir.

Sala minnkar hjá Ford

Almennt er búist við að tekjur bílaframleiðandans Ford minnki þriðja mánuðinn í röð í apríl, en fyrirtækið hefur þó lýst yfir að líklega muni eftirspurn eftir tvinnbílum aukast. Verð bréfa hækkar um 1%.

Hagnaður IAC/Interactive lækkar um 32%

Netverslunarfyrirtækið tilkynnir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs nemi 47,2 milljónum dollara, 3.485 milljónum króna, eða 14 sentum á hlut. Leiðréttur hagnaður nemur 31 senti á hlut. Sérfræðingar höfðu búist við að hagnaður næmi 27 sentum á hlut, en tekjur jukust um 36% og voru 1,55 milljarðar dollara. Hlutabréf í félaginu hækka örlítið.

BAWAG nærri samningi við lánardrottna Refco

Austurríski bankinn Feur Arbeit und Wirtschaft, BAWAG, býst við að ná lokasamningum við lánardrottna bandaríska miðlunarfyrirtækisins Refco á næstu dögum, segir forstjórinn, Ewald Nowotny.

Hagnaður St. Paul Travelers hækkar

Hagnaður næststærsta fyrirtækjatryggingafélags Bandaríkjanna hækkar á fyrsta ársfjórðungi og nemur 1,01 milljarði dollara, 74,6 milljörðum króna, eða 1,41 dollara á hlut, vegna færri gjaldaliða, auk þess sem engin stóráföll áttu sér stað og tekjur af fjárfestingum jukust. Þá tilkynnir fyrirtækið að það búist við hærri hagnaði en áður á hlut -- 4,7-5 dollurum á hlut. Hlutabréf hækka í verði um 5%.

Devon ætlar að kaupa Chief Holdings

Orkufyrirtækið Devon Energy samþykkir að kaupa olíu- og gaseignir Chief Holdings fyrir 2,2 milljarða dollara, eða 162 milljarða króna, í reiðufé. Devon býst við að samningar náist fyrir lok júnímánaðar. Hlutir í Devon hækka um nærri 2% í verði.