Hagvöxtur í þeim 12 löndum sem nota evru sem gjaldmiðil jókst á fyrsta fjórðungi ársins og þykir það auka líkurnar á að evrópski seðlabankinn hækki stýrivexti.

Verg þjóðarframleiðsla jókst um 0,6% á fjórðungnum, samkvæmt frummati Eurostat, og er það í samræmi við væntingar sérfræðinga. Þetta þýðir að hagvöxtur síðasta ár hefur verið 2%. Framleiðsla í Þýskalandi jókst á fyrsta fjórðungi og fjármálaráðherra Þýskalands, Michael Glos, segir að það styðji bata á vinnumarkaði.

Hagnaður ING eykst um 3,3%

Hollenski bankinn ING tilkynnir að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 2,01 milljarði evra, eða 180 milljörðum íslenskra króna, borið saman við 1,94 milljarða evra á sama tímabili árið áður. Þessi afkoma er framar væntingum sérfræðinga, sem höfðu búist við 1,68 milljarða evra hagnaði á fjórðungnum.

Hagnaður Deutsche Tel hækkar um tíund

Hagnaður símafélagsins Deutsche Telekom hækkaði um 9,7% á fyrsta ársfjórðungi og nam 1,08 milljörðum evra, 97 milljörðum króna, borið saman við 984 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Aukningin er þökkuð batnandi rekstri farsímaþjónustu, sem vóg upp slappa frammistöðu í fastlínurekstri. Spár sérfræðinga höfðu hljóðað upp á 1,02 milljarða evra og lækkaði gengi bréfa í félaginu um nærri 3% í kjölfar tíðindanna.

Þörf á að standa vörð um verðlag að mati seðlabanka Evrópu

Evrópski seðlabankinn segir, í mánaðarriti sínu, að standa verði vörð um að verðbólga fari ekki af stað á evrusvæðinu. Talið er líklegt að verðbólga verði yfir 2% til skamms tíma litið.

Seðlabankinn vestra hækkar vexti

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkar stýrivexti um fjórðung úr stigi, upp í 5%. Þetta er sextánda kvartstigsbreytingin í röð og þykir bankinn gæta jafnvægis milli þess að halda verðbólgu í skefjum og "vilja til að íhuga að stöðva vaxtahækkunarhrinu síðustu tveggja ára," segir í frétt Dow Jones.

Hagnaður Repsol yfir væntingum

Hagnaður olíu- og orkufyrirtækisins Repsol hækkaði um 7,5% á fyrsta fjórðungi frá fyrra ári og nam 844 milljónum evra, eða 75,8 milljörðum íslenskra króna. Sérfræðingar höfðu búist við 840 milljónum evra, en þeir hafa áhyggjur af því að fyrirhuguð ríkisvæðing olíufyrirtækja í Bólivíu hafi neikvæð áhrif á birgðastöðu fyrirtækisins.

Koparverð í London fer yfir 8.300 dollara á tonnið

Verð á kopar á málmmarkaðinum í London fer upp í 8.305 dollara á tonnið, eða 586.000 krónur, þar sem fjárfestar færa peninga sína í auknum mæli yfir í þessa málmtegund.

Iðgjöld hjá AXA hækka um fimmtung

Góð sala á líftryggingum í Bandaríkjunum og Japan stuðla að því að sambærileg iðgjöld tryggingafélagsins AXA hækka um 21% á fyrsta ársfjórðungi og nema 1,57 milljörðum evra, eða 141 milljarði króna. Sérfræðingar höfðu spáð 1,42 milljörðum evra.