Burger King hefur ákveðið að útboðsgengi þegar fyrirtækið verður sett á markað verði 17 dollarar á hlut, en búist hafði verið við 15-17 dollurum. Ákvörðunin var tekin í kjölfar tilboða nokkurra þekktra veitingahúsakeðja í hlutafé í fyrirtækinu.

Burger King hyggst safna 425 milljónum dollara í hlutafé með útboðinu og hyggst nota peningana til að endurgreiða 350 milljóna dollara lán sem tengist nýlegri fjármögnun og greiðslu á arði til núverandi eigenda.

EBITA hjá Sabmiller hækkar um 23% milli ára

Bruggrisinn Sabmiller tilkynnir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir óáþreifanlegra eigna nemi 2,94 milljörðum dollara, 209 milljörðum íslenskra króna, en sérfræðingar höfðu búist við 2,73 milljarða dollara hagnaði. Fyrirtækið segist búast við frekari rekstrarbata á næsta reikningsári. Tekjur hækkuðu um 19% og námu 15,31 milljarði dollara, eða 1.089 milljörðum króna.

Pitney Bowes ætlar að selja fjármáladeild fyrir 745 milljónir dollara

Pitney Bowes ætlar að einbeita sér að póstþjónustu og samþykkir að selja fjármáladeild sína fyrir 745 milljónir dollara. Fyrirtækið hyggst nota tekjurnar, auk annarra fjármuna, til að borga 1,14 milljarða dollara í skatt.

Tilboð Mittal í Arcelor tekur gildi

Hlutabréf í stálrisanum Mittal Steel lækka um nærri 4% og í Arcelor um nærri 3% í kjölfar yfirlýsingar þess fyrrnefnda um að 19 milljarða evra tilboð þess í það síðarnefnda hafi tekið gildi. Hluthafar í Arcelor hafa frest til 29. júní til að taka eða hafa tilboðinu, sem felur í sér greiðslur í reiðu- og hlutafé.

Möguleiki á verkfalli hjá Alcoa vestra

Alcoa og verkalýðsfélagið United Steelworkers hefja væntanlega viðræður um nýjan kjarasamning á næstunni, fyrir 15 álver í Bandaríkjunum og um 9.000 starfsmenn fyrirtækisins. Eitt stærsta samningsatriðið er hvort starfsmenn eigi að bera hluta kostnaðar við heilsutryggingu.

Hlutabréf í Tókýó ekki lægri í tvo mánuði

Nikkei 225 vísitalan lækkaði um 1,4% í gær og hefur ekki verið lægri í tvo mánuði. Lækkunin er rakin til ótta við verðbólgu í Evrópu og útflutningsfyrirtæki jafnt sem fyrirtæki sem starfa á heimaslóðum verða fyrir gengislækkun. Bréf í fyrirtækjum á borð við Matsushita Electric og Mitsubishi UFJ Financial Group lækka í verði.

Kviðdómur í Enron-málinu byrjar að ráða ráðum sínum

Alríkiskviðdómur byrjar að ráða ráðum sínum í réttarhöldum yfir yfirmönnum Enrons, Kenneth Lay og Jeffrey Skilling. Þeir eru sakaðir um fjársvik og samsæri. Saksóknari hvetur kviðdómendur til að sjá í gegnum "lygar" og dæma mennina sem jafningja.

Hluthafar gagnrýna Intel

Stjórn örgjörvaframleiðandans Intel sætir mikilli gagnrýni hluthafa vegna lækkandi gengis hlutabréfa í fyrirtækinu. Stjórnarformaðurinn, Craig Barrett, leggur til að bónusgreiðslur til stjórnenda verði lækkaðar og kaupréttarsamningar minnki að umfangi.