Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í dag á borgarfundi í Iðnó að til að hækka laun hér á jafns við nágrannalöndin verði framleiðni í íslenskum þjóðarbúskap að aukast. Óskynsamlegir kjarasamningar séu nú á borðinu. Eina leiðin sé að gera stutta samninga og nota tímann til að horfa til framtíðar. Þessu greinir RÚV frá.

Í dag efndi hópur, stofnaður undir kjörorðinu Aukum kaupmáttinn, til borgarfundar í Iðnó undir yfirskriftinni Hvað geta deiluaðilar lært af sögunni?

Á fundinum mælti Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins. Hann sagði að sjálfsagt væru margar skýringar á því ástandi sem nú ríki í kjaramálum. Hann sagði að þörf væri á markvissari efnahagsstefnu sem feli í sér áætlun um hvernig auka eigi framleiðni í þjóðarbúskapnum. Hann sagði hana grundvöll fyrir því að auka kaupmáttinn. Menn yrðu að sjá skýra stefnu í peningamálum sem tryggi það að alllir Íslendingar geti búið við stöðugan gjaldmiðil sem tekur ekki hærri vexti en í samkeppnislöndunum.

Þorsteinn sagði að vandinn við íslenska efnahagsstjórn sé sá að ekki sé skipulagt til framtíðar. „Alltaf þegar hlutir taka lengri tíma en tvo daga þá ýtum við þeim frá okkur og segjum þetta er eitthvað fyrir framtíðina. Við erum bara í nútíðinni. Meðan við hugsum svona gerumvið aldrei neitt af skynsemi. Ég held að við séum nákvæmlega í þeirri stöðu núna. Það er þó nokkuð síðan að það var of seint að snúa við. Ég held að þó að gengið yrði að öllum kröfum sem liggja á borðinu þá myndi enginn launþegahópur ná markmiðum sínum með þeirri niðurstöðu. Og þegar við erum í þeirri aðstöðu eru óskynsamlegir kjarasamningar á borðinu. Þó að almennt sé það svo að skynsamlegt sé að semja til lengri tíma og skapa stöðugleika. Ef að menn eiga ekki kost á skynsamlegri niðurstöðu þá er betra að hún standi í sem skemmstan tíma og menn einhendi sér í það að horfa lengra inn í framtíðina,“ sagði Þorsteinn.

Á fundinum mælti einnig Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur. Hún sagði að fjölmargir hefðu bent á afleiðingar mikilla launahækkanna og síðast í gær hefði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að vandinn á vinnumarkaði væri mest aðkallandi vandinn í íslenska hagkerfinu. Hún sagði að hann lægi ekki í tölunum því hagvöxtur hefir aukist mikið á síðasta ári og verðbólga væri í lágmarki. Hugsanlega lægi hann í launadreifingunni sem væri aftur byrjuð að líkjast því sem hún var fyrir hrun. Hér áður þegar samið var um miklar launahækkanir hefði gengið einfaldlega verið fellt til að rétta stöðuna. Vegna núverandi peningastefnu væri sá gamli leikur ekki lengur í boði. Þess vegna blasti við minni kaupmáttur, meiri verðbólga, hærri vextir, hækkun skulda heimilanna, minni fjárfestingar og minni hagvöxtur. Katrín sagði að samningar byggðust á samtali atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. Traustið milli þessara aðila væri hins vegar ekki til staðar.