*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 6. maí 2021 10:30

Styðja afnám á einkaleyfi bóluefna

Um hundrað aðildarríki WTO styðja nú við tímabundið afnám á einkaleyfum á Covid bóluefnum.

Ritstjórn
Joe Biden Bandaríkjaforseti
epa

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær stuðning við tímabundið afnám einkaleyfa fyrir Covid-19 bóluefni. Katherine Tai, æðsti viðskiptaráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta, sagði að þrátt fyrir að Bandaríkin hafi sterka trú á hugverkarétti, þá kalli neyðarástandið á óvenjulegar aðgerðir. Hún varaði þó við að viðræður hjá Alþjóðaviðskiptastofnunni (WTO) gætu tekið sinn tíma.

Hugmyndin var lögð fram af Indlandi og Suður Afríku í október síðastliðnum til þess að auka framleiðslu á bóluefnum en talið er að um hundrað af 164 aðildarríkjum WTO séu hlynnt aðgerðunum, að því er kemur fram í frétt BBC.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), segir að ESB sé „tilbúið að ræða“ um hvernig úrræðið geti hjálpað í aðstæðunum sem nú eru uppi en einblíndi þó á að forgangsmál sambandsins snýr að viðskiptahömlum á útflutningi og truflunum á aðfangakeðjum. ESB, ásamt Bretlandi og Sviss, hafði áður andmælt hugmyndinni.

Lyfjaframleiðendur hafa ekki tekið vel í fyrirhugaða úrræðið. Steve Ubl, forstjóri PhRMA, viðskiptasamtaka lyfjafyrirtækja, segir að tímabundið afnám einkaleyfa muni „ekki bjarga lífum“ og „geri ekkert til að tækla raunverulegu vandamálin við að framleiða fleiri skammta“.

„Í miðjum banvænum faralaldri hefur Biden ríkisstjórnin gripið til fordæmalausra aðgerða sem mun grafa undan alþjóðlegum viðbrögðum við faraldrinum og ógna öryggi,“ hefur Financial Times eftir Ubl. „Ákvörðunin mun valda ruglingi á milli einka- og opinberra aðila og þannig lama enn frekar aðfangakeðjur og hvetja til fjölgunar á fölsuðum bóluefnum.“

Hlutabréf bóluefnaframleiðenda lækkuðu í kjölfar fréttanna í gær. Hlutabréfagengi Moderna, BioNTech og Novavax féllu um 3%-6% í gær.

Stikkorð: bóluefni WTO Covid