Meiri hluti fjárlaganefndar hefur skilað frá sér nefndaráliti um þingsáætlunartillögur ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir árin 2017 til 2021, en sex af níu nefndarmeðlimum skrifa undir álitið.

Í nefndarálitinu kemur fram að ekki megi búast við því að hagstæðar kringumstæður á borð við hjöðnun verðbólgu erlendis, lækkandi olíu- og hrávöruverð og styrking gengis krónunnar haldi áfram til jafns við innlendar kostnaðahækkanir á komandi árum, en þessi atriði eiga stóran þátt í því að verðbólga er enn lítil þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir. Í ljósi þess að Seðlabankinn spáir vaxandi þenslu og verðbólguþrýstingi á komandi misserum væri því heppilegra ríkisútgjöld hækkuðu hlutfallslega minna en landsframleiðsla.

Styður styttingu grunnskólanna

Í nefndarálitinu kemur fram að brýnt sé að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var með skipun hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar og þykir sú vinna ekki hafa verið í nægum forgangi undanfarin misseri. Meiri hlutinn fagnar því að stytting framhaldsskólanna um eitt ár muni líklega leiða til mikils hagræðis og tekur undir þá skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga að eðlilegt sé að stytta grunnskólann um eitt ár þannig að íslenskir nemendur útskrifist úr famhaldsskóla á sama aldri og tíðkast í nágrannalöndunum.

Þá sé mikilvægt að draga úr húsnæðisþörf stofnana á vegum ríkisins, en ríkið hefur til umráða um 141 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Alþjóðleg viðmið geri ráð fyrir um 16 m2 fyrir hvert stöðugildi en ríkið hafi miðað við 23 m2. Í reynd sé fermetrafjöldi á starfsmann mjög mismunandi eftir stofnunum og getur verið allt að 60 m2.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .