*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Innlent 15. nóvember 2013 17:03

Styðja við uppbyggingu Vigdísarstofnunar

Níu fyrirtæki undirrituðu í dag samning vegna stuðnings við Vigdísarstofnun.

Ritstjórn

Stjórnendur  níu fyrirtækja undirrituðu í morgun samninga um styrkveitingu til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Styrkirnir nema alls ríflega 20 milljónum króna á þriggja ára tímabili og verður fjármununum varið til að undirbúa starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar um tungumál og menningu, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Kristín Ingólfsdóttir rektor undirritar samningana af hálfu Háskóla Íslands.   

Í tilkynningu frá HÍ kemur fram að fyrirtækin Íslandshótel, Landsbankinn, MP banki, Promens og fasteignafyrirtækið Reginn munu styrkja Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur með einnar milljón króna framlagi á ári í þrjú ár, en Bláa lónið, Icelandair Group, Icelandic Group og olíufélagið N1 með 500.000 króna framlagi á ári í jafn langan tíma. Um síðustu áramót var gerður samningur við Arion banka um tveggja milljóna króna árlegt framlag í þrjú ár. 

Þessir styrkir munu auðvelda stofnuninni að hrinda í framkvæmd áformum um alþjóðlega tungumálamiðstöð, en hún mun verða til húsa í nýbyggingu sem mun rísa við Suðurgötu næst gömlu Loftskeytastöðinni.