Húsnæðismálin stefna í að vera ein þau stærstu á yfirstandandi þingi. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að þau séu einföld.

„Þau snúast um það að 90% ungs fólks langar að eignast sína eigin íbúð. Þá er það hlutverk okkar að gera kerfið þannig að það aðstoði við það, fara að vilja fólksins. Vandinn felst fyrst og fremst í því hversu dýrt það er að fara inn á húsnæðismarkaðinn. Þar eru nokkrir þættir sem skipta máli og byrjað er að skoða.

Eins og til dæmis breytingar á byggingareglugerðinni þannig að fólk hafi meira val um það hvernig íbúðin líti út. Núverandi reglugerð gerir of miklar óþarfa kröfur sem fólk telur sig ekki þurfa en þessar kröfur geta hækkað byggingarkostnað umtalsvert. Ég held að þessar breytingar á byggingareglugerð séu því mikilvæg fyrstu skref.“

Vaxtabótakerfið veitir ranga hvata

„Fjármagnskostnaður er annar stór kostnaðarliður. Þá er áhyggjuefni að af hverri íbúð hér á höfuðborgarsvæðinu séu lóðagjöld 20% af kostnaði. Ég held að leiðir eins og séreignarsparnaðarleiðin, til þess að niðurgreiða lánin, minnka fjármagnskostnað og hjálpa fólki að borga innborgun á íbúðalánin séu góðar leiðir. Að hvetja fólk í gegnum skattkerfið.“

Vilhjálmur telur vaxtabótakerfið veita ranga hvata með því að hvetja fólk til að kaupa sér stærri íbúðir. „Með réttu hvötunum, reglum sem eru ekki íþyngjandi og draga úr tilbúnum kostnaði eins og lóðaverði væri hægt að skila verulegum árangri á einfaldan hátt.“

Hvað finnst þér þá um þessi húsnæðismálafrumvörp sem eru komin fram?

„Ég hef ekki verið sannfærður um að það sé neytandinn sem njóti góðs af því, heldur óttast ég að það séu leigusalinn, verktakinn og fjármagnseigendurnir sem hagnist á auknum stuðningi hins opinbera. Á þeim forsendum er ég ekki hlynntur þeim eins og þau standa í dag.“

Ítarlegt viðtal við Vilhjálm er í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .