Íslenska fyrirtækið Trackwell hefur nú gert samning við Fiskveiðiráði Kyrrahafseyjanna og Fiskveiðnefnd Vestur- og Mið Kyrrahafs og innleitt tvö ný fiskveiðieftirlitskerfi í Kyrrahafinu. Hafsvæðið sem heyrir undir þessar stofnanir er um 100 milljónir ferkílómetra að flatarmáli. Tuttugu og sex ríki eiga aðild  að þessum stofnunum.

Trackwell VMS (Vessel monitoring system) gerir notendum kleift að fylgjast með margvíslegum þáttum í atferli þúsunda skipa í rauntíma. Þannig geta ríki og stofnanir sinnt eftirliti með sinni efnahagslögsögu, ásamt veiðum á afmörkuðum svæðum. Kerfið heldur utan um veiðar skipa og sér um samskipti þeirra milli aðildarþjóða.

Haft er eftir Kolbeini Gunnarssyni, sviðsstjóra sjávarútvegssviðs Trackwell, að samningurinn hafi veitt starfsfólki Trackwell gott tækifæri til að vinna að og aðlaga kerfið við nýjar aðstæður.

„Mikilvægi þessa nýjasta samnings Trackwell við FFA og WCPFC er ekki síst fólgið í því að okkur gafst kjörið tækifæri til að vinna með þessum tveimur leiðandi stofnunum í að þróa og aðlaga kerfið að fjölbreyttu umhverfi og ólíkum hagsmunum Kyrrahafsríkjanna. Þessi lærdómur mun nýtast okkur vel í nýjum verkefnum sem framundan eru,“ segir Kolbeinn.