Stoðtækjafyritækið Össur er í fjórða sæti yfir þau fyrirtæki sem Creditinfo hefur metið framúrskarandi árið 2015.

„Það er jafn og þéttur vöxtur hjá okkur,“ segir Þorvaldur Ingvarsson, forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri. Hann segir þróunarvinnu ganga vel. Hugsað sé til langs tíma enda hafi stefna fyrirtækisins frá upphafi verið sú sama; að nýta tækni til að auka hreyfifærni fólks.

Ýmsar nýjungar hafa nýverið litið dagsins ljós og eru fleiri á leiðinni. Nýr gervifótur var settur  á markað fyrir nokkrum vikum, fótur sem er með auka koltrefjablaði sem minnkar orkunotkun og gefur betri hreyfigetu í ökkla. Byltingakennd nýjung sem á eftir að nýtast mörgum. „Í þessari viku er er að koma á markað. vatnsþétt hné , ný útgáfa af  Rheo hné sem gerir notandanum kleift að takast á við aðstæður sem hefðu annars geta skemmt rafeindabúnað í hnénu svo sem gönguferðir í rigningu og jafnvel  farið í sturtu með það. „Þetta er mikil framför í lífsgæðum fólks og heilmikil tækni sem liggur að bak því að ná þessu í gegn,“ segir Þorvaldur.

Nú eru í þróun hjá Össuri tækni sem gerir fólki kleift að stjórna gervilimum með hugarafli. Tveir einstaklingar sem misst hafa útlim vinna með Össur að rannsóknum og prófunum á þessum vörum. Stjórnunin byggir á því að nemum er komið fyrir í vöðva og tengdir þráðlaust við skynjara í hulsu utan um aflimaða fótinn. Við hreyfingu verður til vöðvaspenna sem stýrir gervifætinum.

„Þetta svínvirkar,“ segir Þorvaldur og telur þessa þróun geta valdið byltingu. „Von okkar er sú að fólk endurheimti hreyfifærni sína eins vel og hægt er og geti stjórnað gervilimum með sama hætti og sá sem ekki hefur misst útlim, það er að segja ósjálfrátt. Næsta skref hjá okkur er að sjá hvort við getum komið skynjun inn í fótinn og til baka til fólks. Það er hægt á margan hátt. Í framtíðinni eins og við sjáum hana verður hægt að ná boðunum beint frá taugum og komið skilaboðum aftur til baka inn í taugakerfið þegar stigið er í fót,“ segir Þorvaldur. Rannsóknarsjóður sem Össur og stoðtækjafyrirtækið Ottobock settu á laggirnar við Háskóla Íslands á dögunum er einmitt ætlar að styðja við rannsóknir á sviði taugastjórnunar. Bæði fyrirtækin leggja samtals rúmar 200 milljónir í sjóðinn á næstu þremur árum.

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .