Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað stýrihóp til að fara yfir hvaða  samgönguframkvæmdir kæmu til greina í samvinnu ríkis og einkaaðila. Formaður hópsins er Helga Valfells hagfræðingur og var fyrsti fundur haldinn í ráðuneytinu nýverið.

Hanna Birna hefur að undanförnu farið yfir með hvaða hætti væri mögulegt að fjármagna ýmis brýn samgönguverkefni með öðru móti en beinum framlögum úr ríkissjóði. Á vef innanríkisráðuneytisins segir að ljóst sé að um leið og minna fé hafi á síðustu árum verið veitt í stofnframkvæmdir í vegakerfinu fari þörfin sífellt vaxandi og því hafi verið ákveðið að kanna rækilega hvaða framkvæmdir unnt væri að ráðast í með samvinnu ríkis og einkaaðila, allt frá undirbúningi og hönnun og að rekstri og þjónustu við slík mannvirki.

Stýrihópnum hefur nú verið falið að fara yfir þau verkefni sem gætu fallið undir þetta fyrirkomulag og kanna fleiri kosti. Stýrihópinn skipa auk Helgu þau Erlendur Magnússon, sjálfstætt starfandi, Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkfræðingur, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri og Þorsteinn Rúnar Hermannsson, verkfræðingur. Fyrir hópinn starfar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og sérstakur fulltrúi ráðherra.