Ríkisstjórnin fjallaði í morgun um tillögur Stýrihóps ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum til þess að sporna gegn atvinnuleysi. Samþykkt var að vinna að framgangi ellefu tillagna sem gætu skapað ríflega 4000 ársverka á næstu misserum.

Þegar einnig er litið til stöðu fimm verkefna sem tengjast virkjun Búðarháls og orkutengdum iðnaði, öðrum en fyrirhuguðu álveri í Helguvík, þá gæti verið um að ræða 6000 ársverk í heildina segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Hér er um að ræða störf í byggingariðnaði, framkvæmdir við snjóflóðavarnir, gróðursetningu, grisjun og stígagerð, orkuviðhald og orkusparnað, minni útflutning óunnins fiskjar, hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, þróunarverkefni í ferðaþjónustu, frumkvöðlasetur í Reykjavík, sérfræðinga af atvinnuleysisskrá til nýsköpunarfyrirtækja, bætta samkeppnisstöðu nýusköpunarfyrirtækja og fjölgun þeirra sem njóta listamannalauna.

Stærstu póstarnir eru 1700 ársverk í byggingariðnaði, 1000 ársverk í bættri samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja, 800 ársverk á byggingatíma Búðarhálsvirkjunar, 300 ársverk í bættri nýtingu sjávarfangs og 300 ársverk vegna endurbyggingar í Straumsvík.

Í stýrihópi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum, sem iðnaðarráðherra er í forsvari fyrir, eru landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, viðskiptaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og umhverfisráðuneytið.