Alls eru hátt í 700 lagagerðir sem bíða upptöku í EES-samninginn. Á sama tíma er 3,1% halli á innleiðingu tilskipana og fjöldi óinnleiddra reglugerða með mesta móti. Nú hefur forsætisráðherra skipað níu manna stýrihóp um framkvæmd EES-samningsins. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar i Evrópumálum. Greint er frá þessu á vef forsætisráðuneytisins.

Forsætisráðuneytið fer með forystu í nýjum stýrihóp en hann er einnig skipaður fulltrúum ráðuneyta og skrifstofu Alþingis. Markmiðið með stýrihópnum er að greina flöskuhálsa í ferli EES-mála frá upphafi þeirra á vettvangi Evrópusambandsins til loka við innleiðingu í landsrétt. Hópnum er ætlað að skila tillögum til úrbóta varðandi einstaka þætti málsins.

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins, fer með formennsku í hópnum.