Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra lagði í dag fram á Alþingi skýrslu um heildstæða Orkustefnu fyrir Ísland eins og kveðið er um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í maí 2009. Orkustefnu er ætlað að vera grundvöllur og viðmið ákvarðana er varða orkumál og skulu ákvarðanir stjórnvalda jafnan vera í sem bestu samræmi við stefnuna.

Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu að skýrslan er tillaga stýrihóps sem iðnaðarráðherra skipaði árið 2009. Um nýmæli sé að ræða að skýrsla sem þessi sé lögð fyrir þingið til umræðu áður en ráðherra gefur út endanlega stefnu.

Stofna á auðlindasjóð

Í skýrslunni er m.a. lagt til að þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum og að komið verði á fót sérstökum auðlindasjóði. Sjóðurinn bjóði út nýtingarsamninga til tiltekins hóflegs tíma í senn, t.d. 25-30 ára eða eftir eðli hvers virkjunarkosts að teknu tilliti til upphafsfjárfestingar og afskriftatíma.

Þá er lagt til að þjóðhagsleg framlegð verði hámörkuð. Ekki skuli ganga á framlegð eða arðsemi orkuvinnslu og -sölu vegna byggða- eða atvinnusjónarmiða í héraði. Markmiðum á þeim sviðum verði náð með öðrum og almennari hætti, t.d. með hlutdeild nærsamfélags í auðlindarentu.

Tilkynning Iðnaðarráðuneytis