Stýrihópur borgarinnar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur leggur til að samruna Reykjavík Energy Invest og Geysi Green verði hafnað. Þetta er sameiginleg niðurstaða allra í hópnum. Borgarráð samþykkti þetta og verður því beint til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að fylgja tillögunni eftir.

Viðbótarupplýsingar: Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði við fjölmiðlamenn þegar hún kynnti þessa niðurstöðu í morgun að verkefnið, það er að segja samruni REI og GGE kynni að vera gott. “En við sem fulltrúar almennings getum aldrei sætt okkur við að svona afdrifaríkar ákvarðanir séu teknar á grundvelli nánast engra upplýsinga.” Svandís sagði að mörg vafamál væru í kringum samrunann sem  nægðu til þess að honum yrði hafnað.