„Þetta hefur gengið svipað fyrir sig og áður, það er bara erfiðara að vera í burtu," segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, sem situr fastur í Washington vegna eldgossins í Grímsvötnum. Hann segir það ganga vel að stýra og taka þátt í ákvörðunartöku frá Washington, en viðurkennir að það væri vissulega mun betra að vera á Íslandi.

Birkir Hólm fundar með starfsmönnum hérlendis á fjögurra tíma fresti, auk þess sem upplýsingar eru sendar út um stöðu mála um leið og þær berast. „Maður er búinn að vera í símanum 20 tíma á sólarhring frá því á laugardag," segir Birkir sem á von á því að fljúga heim til Íslands í kvöld

Birkir minnist þess að hann var einnig erlendis þegar byrjaði að gjósa í Eyjafjallajökli. Þá, ólíkt nú, náði hann heim áður en flugsamgöngur fóru úr skorðum.