Ráðstefnan í Fukushima. Mynd/Dean Calma / IAEA
Ráðstefnan í Fukushima. Mynd/Dean Calma / IAEA
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna ríkisins er forseti ráðstefnu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar um geislavarnir eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan. Ráðstefnan hófst í gær en slysið varð 2011 og leiddi meðal annars til þess að 300 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín strax eftir slysið.

„Tilgangur ráðstefnunnar er einkum að fjalla um reynslu og lærdóm sem draga má af kjarnorkuslysinu í Fukushima, bæði hvað varðar grunnskipulag geislavarna og framkvæmd þeirra á heimsvísu sem og í einstökum löndum. Á ráðstefnunni verður m.a. fjallað um dreifingu geislavirka efna sem bárust í umhverfið og þá geislun sem fólk varð fyrir frá þeim. Einnig verður fjallað um ýmsa læknisfræðilega og þjóðfélagslega þætti, og aðgerðir til að draga úr afleiðingum slyssins til lengri tíma. Sérstök áhersla verður lögð á ýmsa þætti sem taka þarf tillit til við aðkomu íbúa að brýnum úrlausnarefnum eftir kjarnorkuslys, m.a. hreinsun lands og nýtingu þess eftir hreinsun sem og hvenær fólk snýr aftur til landsvæða sem voru rýmd. Gert er ráð fyrir að niðurstöður ráðstefnunnar hafi áhrif á starf IAEA í framtíðinni,“ segir á vef Íslandsstofu.

Ráðstefnan er liður í framkvæmdaáætlun IAEA um kjarnöryggi (IAEA’s Action Plan on Nuclear Safety) sem gerð var í kjölfar slyssins í Fukushima árið 2011. Áætlunin, sem miðar að því að bæta kjarnöryggi í heiminum, var samþykkt á ársfundi IAEA í september 2011. Í þeim tilgangi efnir stofnunin m.a. til ráðstefna þar sem sérfræðingar aðildarríkja hennar greina orsakir og afleiðingar kjarnorkuslyssins í Fukushima með áherslu á hvaða lærdóm megi draga af því. Einnig er þar fjallað um hvernig bæta megi viðbrögð við kjarnorkuslysum og hvernig best megi draga úr langtímaáhrifum þeirra.