Í dag er að vænta stýrivaxtaákvarðana frá Evrópska seðlabankanum og Englandsbanka. Vextir á evrusvæðinu eru nú 4% og er almennt gert ráð fyrir að vöxtum verði haldið óbreyttum, að sögn greiningardeildar Glitnis.

"Markmið Evrópska seðlabankans er að halda verðbólgu undir, en þó sem næst 2%, en verðbólga á svæðinu hefur verið yfir markmiði frá september á síðasta ár og mældist í desember 3,1%. Helstu áhrifavaldar mikillar verðbólgu eru taldir vera hækkandi hrávöruverð á matvöru og eldsneyti og eru því möguleikar bankans á að slá á þær hækkanir sem orsakað hafa verðbólguna takmarkaðir. Auk þess letja versnandi efnahagshorfur á svæðinu bankann í að hækka vexti nú, þótt stjórnendur hans útiloki ekki að brugðist verði við vaxandi verðbólgu, sér í lagi ef aðstæður á fjármálamörkuðum batna," segir greiningardeildin.

Óvissa um ákvörðun Englandsbanka

Hún segir að meiri óvissa ríkir um ákvörðun Englandsbanka á hádegi. Flestar greiningardeildir spá því að vextir bankans verði óbreyttir í 5,5%, en fjárfestar telja hins vegar um það bil 60% líkur á vaxtalækkun i dag, ef marka má verðlagningu á afleiðumörkuðum. Bankinn lækkaði vexti um 25 punkta í desember síðastliðum. Spár greiningaraðila kveða á um vaxtalækkun fyrir lok yfirstandandi ársfjórðungs, og að stýrivextir í Bretlandi verði komnir niður í 4,75% í árslok. Verðbólga á Bretlandi mældist í nóvember 2,1%, en markmið Englandsbanka er 2% verðbólga með 1% þolmörkum. Talsverður verðbólguþrýstingur virðist einnig vera í pípunum þar í landi og hagtölur segja blendna sögu um það hversu hratt hægi á hagkerfinu.