Flest bendir til þess að Englandsbanki muni á næstunni hækka vexti en á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans voru þrír af níu nefndarmönnum þeirrar skoðunar að hækka beri vexti til þess að bregðast við verðbólgu.

Þá töldu einhverjir hinna sex nefndarmannanna að málstaður þeirra sem vilja hækkun væri að styrkjast. Frá þessu greinir Wall Street Journal og vitnar í fundargerð af vaxtaákvörðunarfundi í febrúar. Englandsbanki ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5% í febrúar en vextir í Bretlandi hafa verið óbreyttir síðan í mars 2009.