Þýski bankinn Commerzbank segir í inngangi í umfjöllun sinni um stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í gær að allir seðlabankar heimsins hafa sett stýrivaxtahækkanir á bið vegna óvissu á fjármálamörkuðum. Þeir séu jafnvel að slaka á peningastefnunni vegna ástandsins. En kannski ekki allir, segir í fréttabréfinu. Á fjarlægri eyju langt norður í Atlantshafi sé Seðlabanka stjórnað af ósveigjanlegum víkingum sem óvænt hækkuðu stýrivextina.

Á eftir þessum inngangi er greint frá ástæðum sem peningastefnunefndin gaf út fyrir hækkuninni. Eins og kom fram á fundi Más Guðmundssonar og Þórarins G. Péturssonar í gær væru hærri verðbólguvæntingar áhyggjuefni meðal annars vegna veikingar krónunnar, hækkun hrávöruverðs og húsnæðisverðs.

Hugrökk ákvörðun

„Koma þarf í veg fyrir þessa þróun eins og Seðlabankinn reynir með sinni hugrökku ákvörðun," segir í skjalinu þótt viðurkennt sé að bankinn standi frammi fyrir mikilli óvissu horft til meðal langs tíma á mörkuðum, sem geti haft neikvæð áhrif á íslenska hagkerfið. Sagt er að hagkerfið hafi vaxið meira en spáð var áður og hætta sé á vítahring verðhækkana. Er sérstaklega bent á að áhugavert verði að fylgjast með þróun launa- og neysluverðsvísitölunni.

Hafa sínar efasemdir

Þá segja starfsmenn Commerzbank að það eigi eftir að koma í ljós hvort vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands sé raunverulega hafið og að teknu tilliti til efnahagsástandsins á evrusvæðinu hafi þeir sínar efasemdir. Seðlabankinn hafi að minnsta kosti sýnt fram á hann sé staðráðinn í að berjast gegn verðbólgunni og byggja upp trúverðugleika til lengri tíma.