Bandaríski seðlabankinn mun líklega gefa til kynna að hann hafi auknar áhyggjur af verðbólgu eftir vaxtaákvörðunarfund bankans á miðvikudaginn. Hins vegar mun vaxtaákvörðunarnefndin haga orðalaginu á þann hátt að fjárfestar reikni ekki með því að von sé á snemmbúnum stýrivaxtahækkunum á næstunni.

Í frétt Financial Times eru reyndar leiddar að því líkur að bankinn muni ekki segja að hagkerfinu stafi meiri hætta af verðbólgu heldur en minnkandi hagvexti.

Nánast allir hagfræðingar gera fastlega ráð fyrir því að stýrivextir haldist óbreyttir í 2%. Bandaríski seðlabankinn stendur frammi fyrir töluverðum vanda: Hann vill sannfæra fjárfesta og almenning um að bankinn muni gera hvað sem í hans valdi stendur til að afstýra því að hækkandi verðbólga muni að endingu fest— ast í sessi í verðbólguvæntingum almennings.

En að sama skapi vill seðlabankinn koma í veg fyrir að markaðir með framvirka samninga fari að verðleggja inn stýrivaxtahækkanir. Slíkt myndi hækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja – eitthvað sem bankinn vill ekki við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu vestanhafs.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .