Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist óttast að ákvörðun um hækkun stýrivaxta að undirlagi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) geti ógnað fjármálastöðugleika í landinu.

Hann segist að vísu deila áhyggjum Seðlabankans og IMF af gjaldeyrismarkaði og nauðsyn þess að ná fram styrkingu krónunnar.

Hins vegar sé staðan sú að eignir landsmanna , jafnt fyrirtækja sem einstaklinga, séu að brenna upp í verðbólgu og háum vöxtum.

Fyrirsjáanlegt sé að fólk og fyrirtæki muni lenda í greiðsluvandræðum og hærra vaxtastig muni einfaldlega auka á þann vanda. Það eitt og sér geti unnið algerlega gegn því sem stefnt sé að og menn séu þá enn á ný að ógna fjármálastöðugleikanum í landinu.

Það gagnist ekki nýju bönkunum sem eigi líf sitt undir því að heimilin og fyrirtækin komist í gegnum hremmingarnar nú og vaxtaokur geri þar illt verra.