Greiningardeild Kaupþings banka telur stýrivaxtahækkun Seðlabankans óskynsamlega þar sem vísbendingar eru um að verulega sé að draga saman í hagkerfinu.

Seðlabankinn tilkynnti um 25 punkta hækkun á stýrivöxtum í morgun, eru þeir nú 14,25%.

?Hækkunin nú skapi því hættu á mjög erfiðri aðlögun í hagkerfinu enda ljóst að áhrif vaxtahækkanna koma ávallt fram með töf,? segir greiningardeildin og telur að þetta verði síðasta vaxtahækkun bankans í þessari hagsveiflu en stýrivaxtastig muni samt sem áður haldast hátt í nokkurn tíma.

?Verulega hefur dregið úr verðbólguþrýstingi að undanförnu en tólf mánaða verðbólga mælist nú 7% og ljóst að verðbólga er á niðurleið. Að mati Greiningardeildar er núverandi vaxtaaðhald nægjanlega mikið til þess að ná verðbólgu niður að 2,5% markmiði bankans á næsta ári.

Þessu er Seðlabankinn ósammála en hann telur langtíma verðbólguhorfur ekki hafa batnað umfram spár sem birtar voru í nóvember og að þeirra mati eru enn horfur á að verðbólga verði yfir markmiði á næstu tveimur árum,? segir greiningardeildin.