"Strangur aðhaldstónn mun að öllum líkindum einkenna rökstuðning Seðlabankastjóra nú á eftir," segir Jón Bjarki Bentsson sérfræðingur hjá greiningu Glitnis.

"Mjög mikilvægt er fyrir Seðlabankann að gefa ekki lausan tauminn í aðhaldinu þrátt fyrir þá ákvörðun bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum að svo stöddu," segir Jón Bjarki.

Hann telur að með því að bæta við aukavaxtaákvörðunardegi þann 21. desember sé Seðlabankinn að ítreka þau skilaboð að aðhald haldi áfram, og að möguleiki sé á að Seðlabankinn eigi en eftir að hækka vexti. Það er því of snemt að lýsa því yfir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið.

"Tilgangurinn með því að bæta við auka vaxtaákvörðunardegi er fyrst og fremst að halda þeim möguleika opnum að bæta við einum síðasta lokahnykk á vaxtahækkunarferilinn. Það er einungis nokkrir mánuðir síðan verðbólguþrýstingur var óviðunandi og þess vegna vill Seðlabankinn fá gleggri vísbendingar um að verðbólgan sé á niðurleið. Fyrst og fremst er Seðlabankinn að leita að vísbendingum um að innlend eftirspurn og þensla sé að dragast saman. Undanfarið hefur verðbólgan verið á undanhaldi vegna áhrifa gengis, eldsneytisverðs og þróunar á íbúðamarkaði. Áður en Seðlabankinn getur sett punktinn aftan við vaxtahækkunarferilinn þarf hann að fá fleiri vísbendingar," segir Jón Bjarki.

Hann telur að það sem myndi auka líkur á stýrivaxtahækkun þann 21. desember sé veiking krónunnar, og ef mælingar á verðbólgu í nóvember og desember verði umfram væntingar og spár bankans. "Seðlabankinn mun líka fylgjast með tölum um innflutning og kreditkortaveltu og leita þar staðfestingar á því að þensla sé að dragast saman," segir Jón Bjarki.

Ákvörðun Seðlabanka Íslands þess efnis að hækka ekki vexti, heldur halda þeim óbreyttum í 14% er í takt við væntingar Greiningar Glitnis sem útlokaði þó ekki að Seðlabankinn myndi hækka vexti um 0,25 prósentustig. Jón Bjarki telur það hafa ráðið mestu fyrir Seðlabankann að verðbólguhorfur séu nú mun bjartari en áður og einnig spili ákvörðun ríkisstjórnarinnar þess efnis að lækka matarskatt árhif og skapi svigrúm fyrir Seðlabankann.