Helstu seðlabankar heims lækkuðu stýrivexti með samhæfðu átaki í gær. Er þetta í fyrsta sinn síðan í september árið 2001 að gripið hefur verið til sambærilegra aðgerða. Bandaríski seðlabankinn, Englandsbanki, Evrópski seðlabankinn auk seðlabanka Kanada, Sviss og Svíþjóðar tilkynntu allir 50 punkta lækkun á stýrivöxtum. Auk þess lækkaði Alþýðubankinn í Kína vexti um 27 punkta. Bandaríski seðlabankinn, sá evrópski og Englandsbanki sendu frá sér samhljóða tilkynningar um ákvörðunina. Í henni kom fram að dregið hefði úr verðbólguþrýstingi en á sama tíma hefði ógn fjármálakreppunnar við hagvöxt farið vaxandi. Japansbanki hélt vöxtum óbreyttum en efnahagsástandið þar er með öðrum hætti en á öðrum Vesturlöndum; hins vegar lýstu forráðamenn bankans yfir “miklum stuðningi” við aðgerðirnar.

Hálfgildings þjóðnýting

Þetta voru ekki einu aðgerðirnar sem gripið var til í gær til þess að bregðast við því ófremdarástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Stjórnvöld víða um heim, en þó fyrst og fremst í Evrópu, tilkynntu um einhvers konar aðgerðir til þess að bjarga fjármálakerfum sínum. Mesta athygli vakti björgunaraðgerð breskra stjórnvalda sem felur í sér hálfgildings þjóðnýtingu á bankakerfi landsins.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .