Á síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands var 50 punkta lækkun á stýrivöxtum og 25 punkta lækkun á innlánsvöxtum naumlega felld. Í ljósi aukins gjaldeyrisforða, stöðugs gengis og lægri verðbólgu telur IFS Greining að að Seðlabankinn lækki stýrivexti um 100 punkta nú og innlánsvexti um 50 punkta.

Þetta kemur fram í stýrivaxtaspá IFS Greiningar er Seðlabankinn mun kynna stýrivaxtaákvörðun sína á fimmtudaginn.

Í spá IFS kemur fram að á undanförnum fundum peningastefnunefndar hafa nefndarmenn lagt mikla áherslu á gengisstöðugleika og að ákvörðun um stýrivexti sé tekin m.t.t. afnáms gjaldeyrishafta.

IFS segir gengi krónu hefur verið mjög stöðugt síðastliðna mánuði þrátt fyrir minni inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. Þá styrki nýfengið lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og hinum Norðurlöndunum stoðir krónunnar enn frekar.

Verðbólgan gæti sett strik í reikninginn

Þó segir IFS að hækkun vísitölu neysluverðs í síðasta mánuði hafi verið töluvert umfram væntingar og vísbendingar séu um að enn gæti áhrifa gengisveikingar í verðlagi.

„Gæti það valdið áhyggjum en í síðustu fundargerð peningastefnunefndar kom fram að nefndarmenn töldu að áhrif vegna gengisveikingar væru að mestu komin fram í verðlagi,“ segir í spá IFS.