Væntanlega lækkar Seðlabankinn stýrivexti um 100 punkta á morgun. Ólíklegt er að Peningastefnunefnd breyti takti stýrivaxtalækkana á hverjum stýrivaxtafundi og lækki um 150 punkta.

Þetta kemur fram í stýrivaxtaspá IFS Greiningar sem birt var í morgun.

Þar segir að í kjölfar dóms Hæstaréttar hafi ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hækkað. Þá hafi margt jákvætt komið fram á undanförnum dögum; dómur Hæstaréttar styrki stöðu bankakerfisins, fréttir af Icesave bendi til mögulegrar lausnar í vetur og sala á FIH ætti að skila Seðlabankanum 500 milljónir evra í gjaldeyrisforðann.

„Fréttir undanfarinna daga minnka áhættu kerfisins en eftir standa heimilin í landinu með mikla skuldsetningu og óhagstæða vexti á sama tíma og fjárfestingar eru litlar og landsframleiðsla dregst saman,“ segir í spá IFS.