Greiningardeild Landsbankans telur engan vafa á að Seðlabankinn geti haft áhrif á eftirspurn til lengri tíma og því sé 75-100 punkta vaxtahækkun það rétta í stöðunni hjá Seðlabankanum á fimmtudaginn en oft er rætt um að
miðlunarferli peningastefnunnar taki 18-24 mánuði.

Landsbankinn telur að slík hækkun myndi styðja við gengi krónunnar og auka líkurnar á skaplegri aðlögun á gjaldeyrismarkaði. Þannig má draga úr verðbólguþrýstingi til skemmri tíma. Hressileg vaxtahækkun mun auk þess hafa meiri áhrif á verðtryggða vexti á skuldabréfamarkaði og þar með vexti húsnæðislána. Þau áhrif eru nauðsynleg til að draga úr hækkun húsnæðisverðs, sem er lykilatriði í því að ná niður verðbólgu næstu missera. Miklir hagsmunir eru í húfi, m.a. endurskoðun kjarasamninga í haust, og Landsbankinn telur mikilvægt að nota tæki Seðlabankans til að sporna við á meðan hægt er.

Landsbankinn telur að með 75-100 punkta hækkun stýrivaxta sýnir Seðlabankinn staðfestu og að verðbólgumarkmiðið sé enn í gildi. Áhættan varðandi fjármálastöðugleika sem fylgir miklum vaxtahækkunum er minni en oft áður því erlendir fjárfestar eru að miklu leyti farnir úr krónustöðum. Hættan á yfirskoti til styrkingar á gengi krónunnar er því ekki sú sama og var t.d. þegar vaxtaákvörðun desembermánaðar var tekin.