Greiningardeildir Landsbankans, Glitnis og Kaupþings hafa á síðustu dögum birt stýrivaxtaspár sínar.

Í spám Glitnis og Landsbankans er gert ráð fyrir 0,5% hækkun stýrivaxta næsta vaxtaákvörðunardag. Greiningardeild Kaupþings býst hins vegar ekki við frekari hækkunum.

Landsbankinn segir að ólíklegt sé að aukin aðhaldssemi í peningamálastefnu Seðlabankans leiði til styrkingar krónunnar án þess að aðgengi bankanna að lausafé á gjaldeyrismarkaði sé aukið.

Í spá Kaupþings segir hins vegar að greiningardeild telji eðlilegast að Seðlabankinn reyni til þrautar að auka lausafé á gjaldeyrismarkaði áður en farið er út í frekari stýrivaxtahækkanir.

Spá Landsbankans

Í stýrivaxtaspá greiningardeildar Landsbankans kemur fram að búist er við 0,5% hækkun stýrivaxta 10. apríl. Í spánni segir að Seðlabankinn hafði sérstakar áhyggjur af lækkun krónunnar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, og að sú lækkun hafi neikvæð áhrif á verðbólguhorfur og mögulega efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Seðlabankinn hafi við síðustu hækkun stýrivaxta, 25. mars, lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að fylgja eftir aðhaldssamri peningastefnu til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum og auka traust á krónunni.

Því telur Landsbankinn að Seðlabankinn muni fylgja stefnuyfirlýsingu sinni frá því í síðasta mánuði og hækka vexti meira, enda einbeiti hann sér að því að vinna gegn verðbólgu og verðbólguvæntingum.

Spá Glitnis

Í stýrivaxtaspá greiningardeildar Glitnis  er einnig spáð 0,5% hækkun stýrivaxta 10. apríl líkt og greint var frá í gær . Bankinn spáir því að þar með ljúki hækkunarferli sem hófst vorið 2004 og að Seðlabankinn hefji lækkunarferli vaxta á þriðja fjórðungi ársins. Í spá Glitnis er því spáð að stýrivextir verði 8,0% í lok árs 2009.

Spá Kaupþings

Greiningardeild Kaupþings telur aftur á móti að snögg veiking krónunnar og meðfylgjandi verðbólguskot muni fresta vaxtalækkunarferli Seðlabankans fram á haust, en muni ekki leiða til frekari vaxtahækkana, enda sé vandamál krónunnar ekki það að vaxtamunur sé ekki til staðar. Í spá bankans segir m.a.:

„Greiningardeild hefur áður bent á að stýrivaxtahækkanir muni ekki duga til að snúa gengi krónunnar við í núverandi umhverfi. Hátt grunnálag á íslensku krónunni veldur því að vaxtamunur við útlönd í gjaldeyrisskiptasamningum er allt niður í að vera neikvæður – algengasta leið fjárfesta til að nýta sér vaxtamun við útlönd er því nánast ófær.

Að svo komnu máli finnst Greiningardeild bæði skynsamlegast og líklegast að áherslur Seðlabankans muni nú beinast að því að auka gjaldeyrisforðann og bregðast við þeim lausafjárvanda sem ríkir nú á gjaldeyrismarkaði. Vaxtahækkun við núverandi aðstæður er til þess að fallin að skapa frekari ugg á erlendum mörkuðum um stöðu Íslands og er eðlilegast að Seðlabankinn reyni það fyrst til þrautar að auka lausafé á gjaldeyrismarkaði áður en lengra er haldið í vaxtahækkunum til þess að styrkja krónuna.“

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir því að vaxtalækkunarferlið hefjist í september næstkomandi og að stýrivextir verði 6,5% í lok árs 2009.