Peningastefnunefndir Englandsbanka, Evrópska seðlabankans (ECB), Seðlabanka Ástralíu og Seðlabanka Tékklands koma saman í vikunni til að ákvarða stýrivexti. Seðlabanki Ástralíu ríður á vaðið á þriðjudag en vaxtatilkynninga er að vænta frá hinum bönkunum á fimmtudag. Augu markaðsaðila beinast að Bretlandi og evrusvæðinu á fimmtudag Í Morgunkorni Glitnis segir að spár greiningaraðila sé samhljóða um óbreytta vexti á evrusvæðinu enn um sinn, í 4,0%. Þrátt fyrir versnandi hagvaxtarhorfur vega áhyggjur ECB af verðbólgu væntanlega þyngra þar eð verðbólga á evrusvæðinu er nú 3,2%, langt yfir því 2% verðbólguviðmiði sem bankinn leitast við að halda verðbólgu undir en þó sem næst. Þá munu markaðsaðilar fylgjast grannt með ræðu Trichet, seðlabankastjóra ECB, í kjölfar vaxtatilkynningarnar í leit að frekari vísbendingum um vaxtastefnu komandi mánaða. Þá er almennt búist við að peningastefnunefnd Englandsbanka tilkynni um lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig á fimmtudag vegna versnandi hagvaxtarhorfa og áframhaldandi lánsfjár- og lausafjárvanda, en vextir í Bretlandi eru nú 5,5%. Englandsbanki lækkaði síðast vexti í desember sl. eftir að hafa haldið þeim óbreyttum í 5,75% á þriðja ár, en ákvað hins vegar að halda þeim óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun janúar. Verðbólga á Bretlandseyjum er nú 2,1%, yfir 2% verðbólgumarkmiði Englandsbanka, en vísbendingar um að þegar sé farið að hægja á hagvexti þar í landi vega að öllum líkindum þyngra í ákvörðuninni nú.

Vaxtahækkun í Ástralíu og Tékklandi Samkvæmt könnun Reuters meðal greiningaraðila er búist við að Seðlabanki Ástralíu hækki stýrivexti um 0,25 prósentustig vegna versnandi verðbólguhorfa, en matvælaverð og veitukostnaður hafa hækkað að undanförnu. Ef spáin gengur eftir munu vextir hækka úr 6,75% í 7,0% og hækkunarferlið sem staðið hefur frá vormánuðum ársins 2002 halda áfram. Ástralía fellur í flokk hávaxtalanda ásamt Íslandi, Tyrklandi, Brasilíu, Suður-Afríku, Nýja-Sjálandi og Ungverjalandi en myntir þessara landa hafa verið vinsælar í svokölluðum vaxtamunarviðskiptum þar sem lán er tekið í lágvaxtamyntum, s.s. japönsku jeni og svissneskum franka, og fjárfest er í hávaxtaberandi fjáreignum. Þá er búist við að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig í Tékklandi vegna versnandi verðbólguhorfa, en vextir þar í landi eru nú 3,5%, segir í Morgunkorni Glitnis.