Sænski seðlabankinn mun tilkynna stýrivaxtaákvörðun sína á miðvikudag og er búist við óbreyttum vöxtum í Svíþjóð í 4,0%. Seðlabankinn hækkaði vexti síðast í október og var það tíunda vaxtahækkunin á tveimur árum.

Í Morgunkorni Glitnis segir að degi síðar sé að vænta vaxtatilkynningar frá Seðlabanka Tyrklands. Stýrivextir hafa farið lækkandi í Tyrklandi síðustu mánuðina og er búist við að þeir verði lækkaðir enn frekar nú á fimmtudag, um 0,25 prósentustig, en vextir eru nú 15,5% þar í landi.

Af þeim ríkjum sem hafa þróaðan fjármálamarkað er einungis Tyrkland með hærri vexti en Ísland. Seðlabanki Japan rekur lestina í vaxtaákvörðunum vikunnar, en bankinn mun tilkynna vaxtaákvörðun sína á föstudag. Búist er við óbreyttum vöxtum í 0,5% en stýrivextir voru síðast hækkaðir í febrúar á síðasta ári.