Nú fer að styttast í að bankastjórn Seðlabankans setjist á rökstólana á nýjan leik en þann 14. september í næstu viku er næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans á dagsskrá. Greiningaraðilar, sem Viðskiptablaðið hafði samband við, búast við 0,25 til 0,5 prósentustiga hækkun en vextir bankans standa nú í 13,5%.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi hækkuðu vextir um 50 punkta og var það sextánda hækkun Seðlabankans í röð síðan hækkunarhrina stýrivaxta hófst hér á landi vorið 2004, þegar vextir voru 5,5%. Síðan hafa stýrivextir hækkað um átta prósentustig eða um 800 punkta þar, af 300 punkta frá áramótum. Vextir haf síðan í ágúst verið 13,5%, sem er afar hátt vaxtastig í samanburði við nágrannalönd og önnur OECD ríki.

Sérfræðingar búast við að vaxtahækkunarferill bankans nálgist nú sitt endaskeið og að toppnum verði náð í 14-14,5% vöxtum á haustdögum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri lét það í veðri vaka í rökstuðningi sínum á síðasta vaxtafundi að ýmis teikn væru nú á lofti í hagkerfinu, sem gætu bent til þess að fljótlega yrði ekki þörf á frekari aðhaldi í formi frekari stýrivaxtahækkana og að vaxtalækkunarferill gæti jafnvel hafist strax á næsta ári.

Greiningardeildir Landsbankans og Kaupþings banka spá því að stýrivaxtatoppnum verði náð í næstu viku þegar vextir nái hámarki sínu í 14% eftir 50 punkta hækkun. Greiningadeild Glitnis tekur í sama streng, en útilokar þó ekki að vextir gætu náð hápunkti sínum í 14,5%. Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá greiningu Glitnis, segist búast við 25 til 50 punkta hækkun stýrivaxta í næstu viku en hann telur töluverðar líkur á að til frekari vaxtahækkunar komi þann 2. nóvember, sem muni marka endalok hækkunarferilsins. Jón Bjarki segir að samhliða þeim fundi sé væntanleg útgáfa Peningamála og að þar sé gott tækifæri fyrir bankastjórnina að setja fram rökstuðning sinn fyrir endalok vaxtahækkunarferilsins.

Margar ytri og innri aðstæður í hagkerfinu hafa nú þróast á þann veg að svigrúm hefur nú skapast fyrir Seðlabankann til að gefa örlítið eftir í strangri stjórn peningamálastjórnarinnar. Þóra Helgadóttir, sérfærðingur hjá greiningu Kaupþings banka, nefnir meðal annars að útlit sé nú fyrir að verðbólga hafi náð hámarki sínu, ( tólf mánaða verðbólga stendur nú í 8,6%) dregið hafi úr útlánum bankanna og að einnig bendi allt til þess að þensla á húsnæðismarkaði virðist vera í rénum. ( Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 1,7%í júlí mánuði ) .