Í Morgunkorni Glitnis segir að útlit sé fyrir hraðari kólnun hagkerfisins en Greining bankans hafi ráðgert í þeirri gengis- og stýrivaxtaspá sem birt var í byrjun janúar. Samkvæmt Morgunkorninu eru veður enn válynd á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hagtölur sem birst hafa að undanförnu frá helstu hagkerfum heims sýna að enn er ekki útséð hvernig þeim óróa mun lykta.

Skert aðgengi að lánsfé, lækkun á innlendum hlutabréfamarkaði og lækkun íbúðaverðs hér á landi eru á meðal þeirra þátta sem draga úr innlendri eftirspurn á komandi mánuðum. Verðbólga er enn mikil og langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Útlit er fyrir að hún verði um 6% á fyrsta fjórðungi ársins, ríflega prósentu meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá sinni. Mikil spenna er enn á vinnumarkaði og óvissa þar sem enn er ófyrirséð hver niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði verður. Því telur Greining Glitnis að Seðlabankinn haldi að sér höndum á næsta vaxtaákvörðunarfundi og haldi stýrivöxtum óbreyttum í 13,75%. Greiningin gerir hins vegar ráð fyrir að innlend eignaverðsáhrif, lánsfjárskortur, ásamt óhagstæðum skilyrðum á fjármálamörkuðum dragi úr verðbólguþrýstingi á komandi mánuðum og skapi skilyrði sem gera Seðlabankanum kleift að lækka stýrivexti hraðar en talið var. Greiningin spáir því að Seðlabankinn lækki vexti um 0,25 prósentustig í 13,5% 10. apríl næstkomandi samhliða útgáfu nýrrar þjóðhags- og verðbólguspár. Hún gerir einnig ráð fyrir að vextir verði lækkaðir nokkuð ört og að þeir standi í 11% í árslok og í 7% í lok næsta árs. Áður gerði Greiningin ráð fyrir að bankinn myndi hefja lækkunarferli stýrivaxta á vaxtaákvörðunardegi í maí og að vextir yrðu komnir í 12% í árslok og 9% í lok árs 2009. Helstu óvissuþættir stýrivaxtaspár okkar að þessu sinni eru skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, gengisþróun krónu ásamt þróun eignaverðs.