Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að vextir lána gegn veði verði áfram 12% og vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verði áfram 9,5%, en að daglánavextir lækki úr 16% í 14,5%.

Þetta kemur fram á vef Seðlabankans.

Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og formanns peningastefnunefndar Seðlabankans.

Forsvarsmenn nefndarinnar munu kynna rökstuðning ákvörðunar sinnar kl. 11. í dag.

Í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að stýrivextir verði komnir niður í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009 og að þeir og aðrir vextir fari áfram lækkandi.