Forstöðumaður bandaríska seðlabankans í Cleveland, Loretta Mester, er þeirrar skoðunar að stýrivaxtastefna bankans ætti ekki að miða að því að viðhalda fjárhagslegum stöðugleika á verðbréfa- og eignamörkuðum. Þetta sagði Mester í ræðu sinni sem hún hélt í Stokkhólmi nú á dögunum.

Í ræðu sinni sagði Mestar að peningastefna ætti að einbeita sér að því að viðhalda stöðugleika í atvinnumálum og verðbólgu, en ekki í þágu stöðugleika á verðbréfamörkuðum. Þrátt fyrir að það gæti verið freistandi að ætla að nota stýrivaxtastefnu til þess að stinga gat á stækkandi eignabólur þá ætti seðlabankinn að forðast það.

Búist er við að bandaríski seðlabankinn muni hækka stýrivexti á árinu. Greiningaraðilar telja að líklegra sé að það verði fyrr en seinna vegna þess að verðbréfamarkaðurinn vestanhafs hefur verið óstöðugur og sveiflukenndur, og að seðlabankinn muni leitast til þess að slá á sveiflurnar með vaxtastefnu sinni. Ummæli Mester gætu þó vísað til þess að bankinn muni ekki gera það.