Englandsbanki mun ekki hreyfa við stýrivöxtum og haldast þeir óbreyttir í 4,5%. Bankinn greindi frá þessu í dag.

Sérfræðingar segja að hækkun húsnæðisverðs í Bretlandi á þessu ári hafi haft áhrif á það að bankinn lækkaði ekki stýrivextina. Hækkun orkuverðs nýlega hefur ýtt undir spár um að bankinn hækki vextina á næstunni.

Húsnæðisverð hefur hækkað um 6,2% á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá húsnæðislánafyrirtækinu Halifax, og hækkaði um 0,9% í mars. Hækkunin í mars er sú hæsta í ellefu mánuði.