Norski seðlabankinn tilkynnti í dag um að stýrivextir þar í landi muni haldast óbreyttir enn sem komið er. Möguleiki sé þó á því að þeir verði lækkaðir seinna á árinu ef efnahagsstaðan verður dræmari en hún er í dag. Þetta kemur fram á fréttaveitu Reuters.

„Ef norski efnahagurinn verður fyrir fleiri áföllum er ekki útilokað að stýrivextir lækki og verði jafnvel neikvæðir," sagði seðlabankastjóri Noregs, Øystein Olsen, á fundi um ákvörðun stýrivaxtanefndarinnar í dag.

Efnahagur Noregs hefur séð sinn fífilinn fegri en það er einna helst hráolíuverð sem hefur farið snarlækkandi á síðustu árum og haft neikvæð áhrif. Eins og stendur fer verðið klífandi og er rétt nýlega komið yfir fimmtíu Bandaríkjadali á hverja tunnu.