Hagfræðideild Landsbankans spáir því að stýrivextir verði hækkaðir um 1 prósentustig í næstu viku, úr 2,75% í 3,75%. Næsta ákvörðun peningastefnunefndar er boðuð þann 4. maí næstkomandi.

Þannig telur Landsbankinn líklegt að nefndin ræði 0,75-1,25 stiga vaxtahækkun. Nýjustu verðbólgutölur upp á 7,2% þýði þó að líkur á 0,75 prósentustiga hækkun séu mjög litlar. Jafnframt sé ólíklegt að stærra skref verði tekið en 1 prósentustiga hækkun í ljósi þess að næsta vaxtaákvörðun er 22. júní og gefst þá tækifæri til frekari vaxtahækkana.

Árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 7,2% í mars, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Verðbólgan hefur hækkað ört á undanförnum tveimur árum, en hún mældist 1,7% í byrjun árs 2020. Peningastefnunefnd hefur hækkað stýrivexti úr 0,75% í 2,75% frá maí 2021.

Greining Íslandsbanka gengur ekki jafn langt í spá sinni og Landsbankinn. Bankinn spáir að minnsta kosti 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta í næstu viku. Þannig telur Íslandsbanki að nefndin muni nýta sér hve stutt er á milli næstu vaxtaákvörðunardaga og stigi þá frekar viðbótarskref til hækkunar í júní.