Seðlabanki Evrópu ákvað á fundi sínum í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4%. Ákvörðunin kom fæstum á óvart í kjölfar þess að bankinn hækkaði stýrivexti í síðasta mánuði um 25 punkta, en sérfræðingar gera hins vegar ráð fyrir að minnsta kosti einni vaxtahækkun til viðbótar á árinu - hugsanlega strax í septembermánuði, að því er fram kemur í Financial Times.

Á fjölmiðlafundi sem haldinn var í Frankfurt í gær, þar sem höfuðstöðvar bankans eru til húsa, ítrekaði Jean Claude Trichet seðlabankastjóri að hann teldi að stýrivextir bankans væru enn nægilega lágir til að styðja við frekari hagvöxt á evrusvæðinu. Trichet sagði jafnframt að í ljósi þess hversu mikið af peningum væri í umferð í hagkerfinu og aukningar í útlánum bankanna væri augljós verðbólguhætta til staðar. Seðlabankastjórinn bætti því einnig við að launaskrið og frekari verðhækkanir á olíu á heimsmarkaði væru mikill áhættuþáttur í þessu samhengi. Verðbólga á evrusvæðinu mældist 1,9% í síðasta mánuði, en verðbólgumarkmið seðlabankans er "undir en í kringum" 2%.

Hagvaxtarspá Seðlabanka Evrópu gerir ráð fyrir 2,6% vexti á árinu, en á síðasta ári nam hagvöxturinn 2,7% sem var það mesta í sjö ár. Seðlabankinn hefur iðulega hert mjög fljótt á peningamálastefnu sinni um leið og hagvöxtur kemst á skrið; á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mældist vöxturinn 0,6% sem var töluvert meira heldur en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.

Evrópski seðlabankainn hefur hækkað stýrivexti bankans átta sinum - í öll skiptin um 25 punkta - frá því að hann hóf að fylgja stífri peningamálastefnu í desember árið 2005. Stýrivextir bankans hafa ekki verið hærri frá því árið 2001.