Seðlabankinn tilkynnti nú í morgun að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir í 14%. Þetta er í fyrsta sinn síðan vaxtahækkunarferill Seðlabankann hófst í maí 2004 að vextir standa í stað á vaxtaákvörðunardegi en Seðlabankinn hefur hækkað vexti sautján sinnum síðan vorið 2004. Á þeim tíma hafa vextir hækkað frá því að vera 5,5% í að vera 14%.

Röstuðningur fyrir ákvörðun Bankastjórnar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum verður kynntur síðar í dag klukkan ellefu samhliða útgáfu Peningamála þar sem sýn bankans á þróun og horfum í efnhagsmálum verður kynnt ásamt nýrri þjóðhags og verðbólguspá.

Ákvörðun Seðlabankans nú kemur í kjölfar þess að verðbólguhorfur hafa batnað en samkvæmt síðustu mælingu Hagstofunnar er tólf mánaða verðbólga nú 7,2% en verðbólga hafði náð toppi í ágúst þegar hún fór upp í 8,6%. Einnig hefur gengi krónunnar styrkst undanfarið sem dregur úr verðbólguþrýstingi. Þá eru ýmis teikn á lofti þess efnis að þensla dragist nú saman á mörgun sviðum í þjóðarbúskapnum.

Greiningardeildir Kaupþings og Landsbankans telja að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé nú lokið og að hækkun bankans í september síðasliðnum þegar bankinn hækkaði vexti um 50 punkta upp í 14% hafi verið sú síðasta í samfelldri röð 17 stýrivaxtahækkanna. Greining Glitnis útilokar hinsvegar ekki að Seðlabankinn eigi eftir að hækka vexti enn frekar á næstu mánuðum jafnvel þó að hann hafi látið það ógert nú.