Stýrivextir Seðlabankans verða áfram óbreyttir, og eru því meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, áfram 5,75% samkvæmt yfirlýsingu frá peningastefnunefnd bankans. Jafnframt ákvað nefndin að bindisskylda yrði lækkuð um 0,5 prósent.

Segir í yfirlýsingunni að efnahagshorfur séu lítið breyttar frá síðustu vaxtaákvörðun, því áfram sé útlit fyrir öran hagvöxt og vaxandi spennu á vinnumarkaði. En þrátt fyrir miklar launahækkanir og vaxandi framleiðsluspennu hafi verðbólga haldist undir markmiði í ríflega tvö ár, en í maí mældist hún svipað há og ári fyrr eða 1,7 prósent. Áfram vegist þar á innlendur verðbólguþrýstingur á móti gengishækkun krónunnar og óvenju lítil alþjóðleg verðbólga.

Auka þurfi enn frekar aðhald

Gerir nefndin því ráð fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram eftir ári, en aukist þegar innflutningsverðlag hætti að lækka. Sterkari króna og alþjóðleg verðlagsþróun hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt, en jafnframt segja þeir vísbendingar um að peningastefnan hafi haldið aftur af verðbólguvæntingum með því að tryggja trausta kjölfestu á tímum mikilla launahækkana. Þó telja þeir að líklega þurfi að auka aðhald peningastefnunnar enn frekar í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings.