Seðlabanki Ástralíu hækkaði í dag stýrivexti um 0,25 prósentustig, úr 4% í 4,25%, í þeim tilgangi að spyrna við verðbólgu sem og hækkun húsnæðisverðs.

Þetta er í fimmta sinn frá því í október sem ástralski seðlabankinn hækkar stýrivexti og í ákvörðun sinnin í morgun tilkynnti bankinn að miðað við óbreytt ástand mætti eiga von á fleiri hækkunum.

Glen Stevens, seðlabankastjóri Ástralíu, lagði mikla áherslu á að bankinn vildi sporna við hækkandi húsnæðisverði en líkt og í svo mörgum öðrum ríkjum er það verðbólgan sem Seðlabankinn horfir til. Verðbólgumarkmið ástralska seðlabankans liggur á bilinu 2-3% en þriggja mánaða verðbólga mælist nú 2,1% og hefur hækkað ört síðustu mánuði.