Seðlabanki Ástralíu hækkaði í gær stýrivexti úr 7% í 7,25% en vextir þar í landi hafa ekki verið hærri frá miðju ári 1996.

Þó nokkur gangur hefur verið í ástralska hagkerfinu á undanförnum árum. Hagvöxtur hefur verið ágætur, en á síðasta ári er reiknað með að hann hafi verið á milli 3,5-4%.

Þá mældist atvinnuleysi 4,1% í janúar og hefur ekki verið minna í áratugi. Enn virðist þó vera mikil vinnuaflseftirspurn í landinu, en mælingar á lausum störfum benda til þess að við lok síðasta árs hafi lausum störfum fjölgað um rúm 13% frá sama tíma fyrra árs. Á sama tíma hafa laun hækkað nokkuð hratt og líklegt að verðbólguþrýstingur hafi af þeim sökum aukist.

Verðbólga mældist 3% á síðasta fjórðungi 2007 og jókst töluvert frá fyrri fjórðungi. Seðlabanki Ástralíu er á verðbólgumarkmiði og stefnir bankinn á að halda verðbólgu á milli 2-3%. Hækkunin í gær var í takti við væntingar greiningaraðila.

Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis.