Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði í gær stýrivexti sína úr 3,50% í 3,75%. Um er að ræða 11 skipti í röð sem stýrivextir eru hækkaðir í Bandaríkjunum frá því í lok júní í fyrra þegar þeir voru aðeins 1%. Lesa má úr skýringum Seðlabankans að búast megi við frekari vaxtahækkun. Ekki var einhugur innan vaxtanefndar bankans um ákvörðunina, þar sem einn af tíu meðlimum vildi halda vöxtum óbreyttum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í skýringum bankans er tekið fram að þrátt fyrir að eyðilegging af völdum Katrínar hafi áhrif á eyðslu, framleiðslu og atvinnustig til skemmri tíma þurfi ekki að hafa áhyggjur af þeim áhrifum til lengri tíma. Ennfremur hefur seðlabankinn ekki áhyggjur af verðbólgu til lengri tíma þrátt fyrir hækkun olíuverðs undanfarið.

Á bandaríska markaðinum varð fyrst lækkun á verði skuldabréfa en þau hækkuðu svo aftur þegar á leið. Lítil áhrif mátti sjá á öðrum mörkuðum og sýnir þetta að hækkunin var í samræmi við væntingar

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.