Stýrivextir koma til með að halda áfram að hækka á næstunni og mun vaxtamunur við útlönd haldast hár, að sögn greiningardeildar Landsbankans sem sér ekki ástæðu til að breyta stýrivaxtaspá, þrátt fyrir að verðbólgumæling júnímánaðar hafi verið yfir væntingum.

"Við spáum því að stýrivextir verði hækkaðir um 0,5% á tveimur næstu vaxtaákvörðunarfundum Seðlabankans, 6. júlí og 14. september. Gerum við ráð fyrir að stýrivextir nái hámarki í 13,25% í haust og að vaxtalækkunarferli hefjist síðan í febrúar 2007," segir greiningardeildin.

Stóriðjuframkvæmdir munu að öllum líkindum hefjast við upphaf ársins 2008 og reikna má með að hagstjórnin falli að töluverðu leyti á peningastefnuna.

?Í þetta sinn gerum við ráð fyrir að vaxtahækkunarferlið fari tímanlega af stað og að vextir þurfi því ekki að fara jafn hátt og nú. Eitt helsta vandamál við stjórn peningamála hefur verið hversu seint brugðist hefur verið við verðbólguþrýstingi. Af þessum sökum hafa stýrivextir elt verðbólguvæntingar, fremur en að slá á frekari væntingar. Við gerum ekki ráð fyrir að þessi atburðarás endurtaki sig í næstu efnahagssveiflu," segir greiningardeildin.

Hún bendir á að ef tekið er mið af algengustu spám um skammtímavexti í helstu viðskiptalöndunum felur stýrivaxtaspá í sér að vaxtamunur við útlönd verður áfram mjög hár.

?Þessi vaxtamunur mun síðan virka sem segull á erlent fjármagn sem leitar ávöxtunar með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Jafnvel þótt svo að gert sé ráð fyrir að stýrivextir Seðlabankans fari lækkandi á næsta ári verður enn til staðar töluverður munur á vöxtum hér á landi og erlendis, auk þess sem gengislækkun krónunnar hefur nýjar forsendur fyrir erlenda fjárfesta sem leita ávöxtunar á gjaldeyris- og skuldabréfamarkaði," segir greininardeildin.


Mynd fengin frá Landsbankanum.