Seðlabanki Bretlands ákvað í dag að stýrivextir bankans myndu haldast óbreyttir í 5,25%, en í síðasta mánuði hækkaði bankinn stýrivexti um 0,25 prósentustig.

Mikill meirihluti hagfræðinga hafði búist við því að vextir bankans myndu haldast óbreyttir. Hins vegar eru sérfræðingar í bresku fjármálalífi sannfærðir um að von sé frekari vaxtahækkunum á næstunni. Samkvæmt skoðanakönnun sem Bloomberg gerði nýverið kemur fram að 43% sérfræðinga sem spurðir voru, búast við því að stýrivestir hækki í 5,5% í næsta mánuði og 74% halda að vextir hækki aftur í maí mánuði.

Seðlabanki Bretlands hefur hækkað stýrivexti þrisvar sinnum frá því síðasta sumar, í öll skiptin um 0,25 stig.

Að mati Steve Radley, aðalhagfræðings EEF, er það rétt ákvörðun hjá bankanum að halda vöxtunum óbreyttum um sinn, til að bíða og sjá hverjar afleiðingar síðustu vaxtahækkunar bankans munu verða.

Verðbólga í Bretlandi mælist núna þrjú prósent og á þessu ári er einnig spáð því að hagvöxtur verði um þrjú prósent.